154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

rannsókn vegna örlætisgernings ríkislögreglustjóra.

[15:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ríkissjóður situr uppi með 500 millj. kr. reikning eftir að Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, hækkaði lífeyrisréttindi útvalinna undirmanna sinna um helming án þess að hafa til þess heimild. Þetta er niðurstaða meiri hluta Hæstaréttar sem kallar verk Haraldar örlætisgerning, en samningarnir standa þar sem það þykir a.m.k. ekki sannað að undirmennirnir hafi vitað betur og vissulega var það svo að tveir ráðherrar sögðu Harald í fullum rétti í kjölfar þessarar ákvörðunar, samkvæmt umfjöllun Heimildarinnar a.m.k. Síðastliðinn þriðjudag sendi svo kjara- og mannauðssýsla ríkisins tölvupóst til ráðuneytisstjóra allra ráðuneyta og forstöðumanna ríkisstofnana þar sem ráðuneytin eru minnt á að sinna yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldu sinni og koma í veg fyrir örlætisgerninga af þessum toga í framtíðinni.

Þá kemur einnig fram að fjármálaráðuneytið hafi ekki svarað fyrirspurn blaðamanna um eftirmál niðurstöðu Hæstaréttar en hins vegar hafi dómsmálaráðuneyti vísað á héraðssaksóknara þar sem blaðamenn Heimildarinnar fengu þær upplýsingar að engu máli af þessu tagi hafi verið vísað til saksóknara og ekki sé í gangi rannsókn.

Ég vil af þessum sökum, virðulegi forseti, spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Telur hún ekki rétt með tilliti til alvarleika þessa máls, með tilliti til þess að þarna er búið að skuldbinda ríkissjóð án heimildar að vísa málinu til rannsóknar, að mögulega geti verið um brot á hegningarlögum að ræða í þessu tilliti? Hvernig hyggst hæstv. dómsmálaráðherra bregðast við gagnvart fyrrverandi ríkislögreglustjóra? Mun hún óska eftir því að héraðssaksóknari taki málið til meðferðar?